Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins

Föstudaginn 8. apríl 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til félags- og tryggingamálaráðuneytis, síðar velferðarráðuneytis, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, dags. 12. ágúst 2009, kærði […] hrl., fyrir hönd  […], kt.  […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, sem tilkynnt var kæranda með bréfum, dags. 29. apríl og 6. júlí 2009, um ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur Matstofu Vesturbæjar ehf., síðar Plover ehf., kt. 531100-2470, að því er varðar greiðslu vaxta.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um að greiða ekki vexti á samþykkta launagreiðslu sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur Matstofu Vesturbæjar ehf., síðar Plover ehf., án undangengis gjaldþrots. Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa var tilkynnt kæranda með bréfum, dags. 29. apríl og 6. júlí 2009, þar sem fram kom með vísan til 5. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, sbr. einnig 7. gr. laganna, að hefði verið ákveðið að ábyrgjast greiðslur samtals að fjárhæð 638.244 kr. auk málskostnaðar.

Kærandi kærði til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 12. ágúst 2009, að engir vextir hefðu verið ákvarðaðir á samþykkta launagreiðslu þrátt fyrir ýtrustu kröfur þar um sem og skýlaus ákvæði 8. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum. Krafa var því gerð um leiðréttingu að því er varðar greiðslu vaxta á þegar samþykkta kröfu kæranda um greiðslu launa úr Ábyrgðasjóði launa.

Erindi kæranda var sent stjórn Ábyrgðasjóðs launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. ágúst 2009, og var frestur veittur til 4. september 2009. Með bréfum, dags. 28. september 2009 og 26. október sama ár ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn sjóðsins varðandi viðkomandi kæru. Svarbréf stjórnar Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu þann 9. desember 2009. Í umsögninni kemur fram að Ábyrgðasjóður launa hafi fallist á kröfu kæranda í samræmi við dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6342/2007 að undanskildum kröfum um dráttarvexti. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun sjóðsins með bréfi, dags. 29. apríl 2009, um að sjóðurinn ábyrgðist kröfu hans að fjárhæð 163.424 kr. vegna launa og 61.584 kr. vegna málskostnaðar hans. Enn fremur kemur fram að vegna misskilnings sem upp hafi komið milli lögmanns kæranda og Ábyrgðasjóðs launa hafi málið verið tekið upp aftur í júlí sama ár en starfsmenn sjóðsins hafi staðið í þeirri trú að vinnuveitandi hefði innt af hendi 500.000 kr. inn á kröfu kæranda. Sú greiðsla hafi hins vegar aldrei borist kæranda þar sem lögmaður hans hafi ekki fallist á þau skilyrði sem sett hafi verið af hálfu vinnuveitanda fyrir greiðslu kröfunnar. Ábyrgðasjóður launa hafi því tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. júlí 2009, um viðbótargreiðslu sjóðsins til hans, annars vegar að fjárhæð 474.820 kr. vegna launa og hins vegar að fjárhæð 178.927 kr. vegna málskostnaðar.

Í umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa kemur enn fremur fram að krafa kæranda um dráttarvexti hafi ekki verið viðurkennd í dómi héraðsdóms Reykjavíkur þar sem krafan hafi hvorki verið mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Ábyrgðasjóðnum bæri því ekki skylda til þess að víkja frá þeirri niðurstöðu dómsins og teldi sjóðurinn sér ekki skylt að greiða annað og meira en sem kærandi hafði fengið dóm um. Þá segir jafnframt að sjóðurinn telji því að stofndagur peningakröfunnar gagnvart sjóðnum í skilningi 3. gr. laga um vexti og verðtryggingu sé sá dagur sem krafa var gerð á sjóðinn og bæri að greiða vexti frá þeim degi eða 16. febrúar 2009.

Með bréfi, dags. 10. desember 2009, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 28. desember sama ár. Svar barst frá lögmanni kæranda þann 29. desember 2009 þar sem kærandi ítrekar fyrri sjónarmið sín í málinu og hafnar þeim sjónarmiðum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem fram koma í málinu.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, er heimilt að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til velferðarráðuneytis, áður félags- og tryggingamálaráðuneytis, sbr. lög nr. 162/2010, um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta, sbr. einnig lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda um greiðslu vaxta á greiðslu Ábyrgðasjóðs launa vegna vangoldinna launagreiðslna og orlofslauna fyrrverandi vinnuveitanda.

Í 1. mgr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa segir að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlofslauna, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi.

Í þessu máli liggur fyrir dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6342/2007 frá 5. desember 2007 þar sem fyrrverandi vinnuveitandi var dæmdur til að greiða kæranda meðal annars ógreidd laun í maí og júní 2007 og áunnin orlofslaun fyrir orlofsárið 2007–2008, samtals að fjárhæð 663.424 kr. Ábyrgðasjóður launa samþykkti að greiða kæranda 638.244 kr. með vísan til 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. bréf sjóðsins frá 29. apríl og 6. júlí 2009.

Samkvæmt undanþáguákvæði 7. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er stjórn Ábyrgðasjóðs launa heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur samkvæmt 5. gr. laganna án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, enda liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum á búi hans hafi ekki borið árangur eða ef kostnaður af að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðsstjórnar óeðlilega mikill.

Í tilvitnaðri 5. gr. laganna er nánar kveðið á um hvers konar kröfur skuli njóta ábyrgðar sjóðsins. Þar á meðal eru taldar upp kröfur launamanna um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði þeirra hjá vinnuveitanda, sbr. a-lið, bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti, sbr. b-lið, og kröfur um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. laganna, sbr. c-lið. Verður því að ætla að Ábyrgðasjóður launa hafi ábyrgst vangoldin laun og orlofslaun kæranda á grundvelli a–c-liða 5. gr. laganna, sbr. einnig 7. gr. laganna.

Samkvæmt 8. gr. laganna skulu kröfur skv. a–d-liðum 5. gr. bera vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga þeirra til þess dags er Ábyrgðasjóður launa greiðir kröfuna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess er varð að 8. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur fram til skýringa að „gjalddagi krafna skv. a- og b-lið 5. gr. er fyrsti dagur næsta mánaðar fyrir hvern mánuð eða skemmra tímabil sem nýtur ábyrgðar sjóðsins. Stofn til útreiknings vaxta er sú fjárhæð sem eftir stendur þegar tekið hefur verið tillit til 6. gr. þessara laga. Gjalddagi orlofslaunakröfu skv. c-lið 5. gr. miðast við úrskurðardag nema starfslok kröfuhafa eða síðasta gjalddaga kröfu sem nýtur ábyrgðar skv. a- eða b-lið 5. gr. beri upp á dag fyrir úrskurðardag og skal krafan þá bera vexti frá þeim degi. Vextir skulu reiknaðir af heildarlaunakröfu starfsmanns á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr., að teknu tilliti til niðurstöðu sjóðsins um greiðsluskyldu skv. a- og b-lið 5. gr. og 6. gr.

Að teknu tilliti til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að 8. gr. laganna um Ábyrgðasjóð launa um vexti eigi við um greiðslur Ábyrgðasjóðs launa til kæranda á grundvelli a–c-liðar 5. gr. laganna, sbr. einnig 7. gr. laganna, og skulu greiðslurnar því bera vexti samkvæmt 8. gr. laganna sem hér segir: af 300.046 kr. frá 1. júní 2007, af 163.424 kr. frá 1. júlí 2007, af 136.622 kr. frá 1. júlí 2007, af 12.076 kr. frá 1. júlí 2007, af 6.644 kr. frá 1. júlí 2007 og af 19.432 kr. frá 1. júlí 2007, sbr. fylgiblað með greiðslubeiðni Ábyrgðasjóðs launa til kæranda. Samkvæmt orðanna hljóðan 8. gr. laganna skulu kröfur samkvæmt a–d-lið 5. gr. laganna bera vexti til þess dags er Ábyrgðasjóður launa greiðir kröfuna. Skal umrædd krafa sem hér um ræðir því bera vexti til 6. júlí 2009 er Ábyrgðasjóður launa greiddi kröfuna að fullu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Greiðslur Ábyrgðasjóðs launa til kæranda á grundvelli a–c-liðar 5. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sbr. einnig 7. gr. laganna, skulu bera vexti samkvæmt 8. gr. laganna sem hér segir: af 300.046 kr. frá 1. júní 2007, af 163.424 kr. frá 1. júlí 2007, af 136.622 kr. frá 1. júlí 2007, af 12.076 kr. frá 1. júlí 2007, af 6.644 kr. frá 1. júlí 2007 og af 19.432 kr. frá 1. júlí 2007, sbr. fylgiblað með greiðslubeiðni Ábyrgðasjóðs launa til kæranda, til 6. júlí 2009 er Ábyrgðasjóður launa greiddi kröfuna að fullu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum